Verður heimurinn betri?

„Okkar kynslóð er sú fyrsta sem getur útrýmt fátækt og sú síðasta sem getur spornað gegn loftslagsbreytingum“

—Ban Ki-Moon, frv. aðalritari Sameinuðu þjóðanna

Bókin Verður heimurinn betri? hefur það að leiðarljósi að efla ungt fólk til umræðu um alþjóðasamvinnu og þróunarmál og hvetja þau til að taka virkan þátt í að móta framtíð heimsins. Bókin fer yfir árangur Þúsaldarmarkmiðanna á árunum 2000-2015, lýsir stöðunni í dag þar sem unnið er að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Heimsmarkmiðin eru háleit og stefna til dæmis að því að útrýma fátækt og hungri fyrir árið 2030. Þátttaka ungu kynslóðarinnar í framkvæmd Heimsmarkmiðanna skiptir sköpum og fræðsla í skólum er þar fyrsta skrefið.

Í bókinni er svarað spurningum svo sem hvað er þróun og hvernig er hún mæld?, hverjar eru helstu áskoranirnar?, Hver er staðan í dag?, Af hverju höldum við að heimurinn sé verr staddur en hann er í raun og veru?, og síðast en ekki síðst „Verður heimurinn betri?”. Fjallað er um þróun í veröldinni á auðskiljanlegan, upplýsandi og jákvæðan hátt, velt upp spurningum og umræðum og vísað í staðreyndir og nýja tölfræði.

Bókin er ætluð efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Hún er þýdd úr sænsku (Blir världen bättre á upprunamálinu) en hún var gefin út af Norðurlandaskrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu Þjóðanna (UNDP). Fyrsta útgáfa kom út árið 2005 og er þetta sjöunda útgáfa bókarinnar, uppfærð og endurskoðuð. Mikil og góð reynsla er af bókinni í Svíþjóð og því þótti upplagt að þýða hana á íslensku svo hægt væri að nýta efnið til kennslu hér á landi. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi annast þýðingu og útgáfu bókarinnar hérlendis, fyrir tilstuðlan styrks frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Bókin hefur verið send í alla grunnskóla landsins.

Stefnt er að næstu útgáfu bókarinnar á vorönn 2019.

Kennslugögn