Um félagið

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var stofnað í apríl 1948. Í fundargerð stofnfundarins kemur ekki fram dagsetning fundar, einungis að fundurinn hafi verið haldinn sunnudag í apríl 1948 á Hótel Borg í Reykjavík. Fyrsti forseti félagsins var Ásgeir Ásgeirsson sem þá var þingmaður Alþýðuflokksins. Ásgeir þekkja eflaust flestir en hann var annar forseti lýðveldisins og gengdi embættinu frá 1952-1968. Saga félagsins er því orðin löng og fjölbreytileg, en skipulagðri skráningu hennar er ekki lokið.

Heimssamtökin World Federation of United Nations Associations voru stofnuð í apríl 1946 af 22 félögum Sameinuðu þjóðanna. Í dag telja Félög Sameinuðu þjóðanna á annað hundrað en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193.

Við stofnun Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, í mars 2004, var starfsmaður ráðinn og hafði m.a. það hlutverk í 10% stöðu fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna að gefa út fréttabréf félagsins, uppfæra vefsetur þess, viðhalda félagatali o.s.frv. Þröstur Freyr Gylfason var ráðinn til félagsins í 20% starf í febrúar 2005 og var aukið við stöðuna árið 2006 og henni breytt í 40% hlutastarf framkvæmdastjóra. Þetta var gerbreyting frá fyrri tíð en um áratugaskeið hafði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verið rekið af stjórnarmönnum í sjálfboðavinnu. Guðrún Helga Jóhannsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 2008 og var henni kleift að auka stöðugildið í 50% til ársins 2011. Berglind Sigmarsdóttir tók við stöðunni af Guðrúnu Helgu árið 2011 og gengdi starfi framkvæmdastjóra til ársins 2016. Í tíð Berglindar jókst starfsemi félagsins til muna og við bættist UNESCO skólaverkefnið sem unnið er í samstarfi við íslensku UNESCO-nefndina og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Stöðugildi framkvæmdastjóra fór úr 50% í 100% og er núverandi framkvæmdastjóri, Vera Knútsdóttir í 100% starfi.

Áður en Félag Sameinuðu þjóðanna fékk aðstöðu í sameiginlegri Miðstöð SÞ á Laugavegi 176 hafði það um árabil haft starfsaðstöðu í Austurstræti. Þegar sú aðstaða var ekki lengur fyrir hendi fékk félagið í nokkur ár afnot af herbergi hjá utanríkisráðuneytinu ásamt fundaraðstöðu. Var það afar mikilvægur stuðningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna því allstórt hlutfall af fjármagni félagsins hafði um árabil farið í húsnæðisrekstur í stað verkefna.

Sú breyting, að komast í sameiginlega Miðstöð SÞ, var því mikil og opnaði fyrir nýja möguleika í starfsemi félagsins. Miðstöðin var opnuð 12. mars 2004 og var fyrst til húsa í Skaftahlíð 24. Á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október, árið 2005 var ný Miðstöð Sameinuðu þjóðanna formlega opnuð á Laugavegi 42, 2. hæð.

Þennan dag var 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna fagnað, og af því tilefni og formlegrar opnunar nýrrar Miðstöðvar SÞ efndu Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við UNRIC (Upplýsingaskrifstofa S.Þ. fyrir V-Evrópu) til veglegs málþings um Sameinuðu þjóðirnar sextugar, undir yfirskriftinni: „Eftir leiðtogafundinn, hvað nú?“.

Í lok apríl 2012 fluttu fluttu félögin þrjú miðstöðina að Laugaveg 176 og eru þar í góðu leiguhúsnæði á fimmtu hæðinni. Fasteignafélag Reitir veita félögunum myndarlegan styrk í formi hagstæðs leiguverðs og kemur það sér afar vel fyrir rekstur þessara félaga.

Sameiginlega reka Miðstöð SÞ þrjú félög, þ.e. Unicef, UN Women og Félag Sameinuðu þjóðanna.