Heimsmarkmiðin – 4. Menntun fyrir alla

Að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi

þegar aprílmánuður er genginn í garð kynnum við þema mánaðarins, sem er heimsmarkmið 4 – menntun fyrir alla.

Út árið munum við kynnast heimsmarkmiðunum betur í gegnum þema hvers mánaðar. Birt verður grein um eitt af heimsmarkmiðunum, ítarefni, upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðunum og lagt sitt að mörkum til sjálfbærrar þróunar. Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig er hægt að innleiða þau í framtíðarstefnu og starfsemi.

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á árar getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags-umhverfisbreytingar, efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.

Óhætt er að að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu yfir öll mörk og mæri svo að það verði mögulegt.

 

4. Menntun fyrir alla

Menntun er ekki aðeins grundvallarmannréttindi heldur felast í henni réttindi sem leysa úr læðingi önnur mannréttindi. Þau eru sameiginleg gæði og einn af helstu drifkröftum framfara í öllum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Menntun er lykillinn að betri framtíð og er í raun grunnurinn að því að fólk fái notið þeirra samfélagslegu gæða sem í kringum það er, hvort sem þau eru efnahagsleg, félagsleg eða menningarleg. Menntun gefur einstaklingum tækifæri til að brjótast úr fátækt og til að vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu sem þeir tilheyra, til dæmis með þátttöku í kosningum.

Menntun er mikilvæg til að auka réttindi kvenna með því að virkja þær og efla. Menntun er einnig mikilvæg til þess að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, til þess að virkja mannréttindi og lýðræði, sem og hún eykur skilning fólks á mikilvægi umhverfisverndar.

Mikilvægi menntunar er óumdeilanleg og nauðsynlegt er að tryggja aðgengi allra að góðri grunnmenntun. Það eru réttindi, ekki forréttindi, að njóta menntunar.

 

Áhrif Covid-19

Covid-19 faraldurinn hefur valdið mestu truflun á menntun sem um getur. Ef ekki er brugðist við kunna milljónir barna að verða fyrir óbætanlegum skaða.

168 milljónir barna hafa ekki geta mætt í skólann í nánast heilt ár vegna skólalokana í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Ennfremur hafa um það bil 214 milljónir barna – eða 1 af hverjum 7 á heimsvísu – misst af meira en þremur fjórðu af skólaárinu. Þetta kemur fram í skýrslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) birti á dögunum.

Til að vekja athygli á því neyðarástandi sem ríkir í menntamálum vegna kórónaveirunnar afhjúpaði UNICEF á dögunum innsetninguna „Pandemic Classroom“ við höfuðstöðvar sínar í New York. Er innsetning búin til úr 168 tómum skólaborðum og skólatöskum og táknar hvert borð milljón börn sem hafa ekki komist í skólann í heilt ár. Með innsetningunni vildi UNICEF senda skilaboð til ríkisstjórna heimsins um að forgangsraða opnun skóla og að bæta aðgang að menntun fyrir þær milljónir barna sem hafa ekki getað stundað fjarnám á meðan á lokunum stendur.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn, ungmenni og samfélög í heild. Meirihluti skólabarna í heiminum treystir á skólann sem ekki einungis stað til að læra heldur einnig stað þar sem þau geta átt samskipti við jafnaldra sína, fengið sálræna aðstoð, bólusetningar og heilbrigðisþjónustu. Auk þess eru skólamáltíðarnar oft næringarríkasta máltíðin sem börn fá þann daginn. Jafnframt er varað við því að því lengur sem röskun er á skólastarfi og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni alveg upp úr námi. Annað ár heimsfaraldursins er að hefjast og óttast er að tala barna utan skóla muni aukast um 24 milljónir vegna farsóttarinnar.

Fjarnám og lokun skóla kann jafnframt að grafa undan áratuga gamalli framþróun að auknu jafnrétti kynjanna í menntun og á fleiri sviðum. Um allan heim eykst hætta á barneignum á unglingsaldri, snemmbærum þungunum og þvinguðum hjónaböndum auk ofbeldis. Fyrir margar stúlkur er skólinn ekki aðeins lykill að betri framtíð heldur líflína.

Áður en heimsfaraldurinn reið yfir sátu 130 milljónir stúlkna í heiminum ekki á skólabekk. Að mati Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eiga 11 milljónir stúlkna til viðbótar á hættu að eiga ekki afturkvæmt á skólabekk. 

 

Staðan á Íslandi

Ákvæði í íslenskum lögum falla vel að heimsmarkmiðunum, svo sem um rétt allra til menntunar, gildi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag og tengsl almennrar menntunar, lýðræðis og mannréttinda, jafnréttis, menningar og sjálfbærni. Meginmarkmið stjórnvalda er að skapa umhverfi fyrir eflingu menntunar í landinu og veita öllum viðeigandi undirbúning og tækifæri til frekara náms eða starfa og virka þátttöku í samfélaginu. Kjarni íslenskrar menntastefnu á leik- og grunnskólastigi hverfist um grunnþættina: læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð, sjálfbærni og sköpun. 

Íslenskt samfélag stendur þó frammi fyrir ýmsum áskorunum þegar kemur að menntamálum og er mikilvægt að leggja áherslu á að skilja engan eftir

Huga þarf sérstaklega að þörfum nemenda af erlendum uppruna, leggja áherslu á jafna stöðu og tækifæri þeirra til menntunar. Tryggja þarf stuðning á öllum skólastigum, meðal annars með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli og stuðla að virku tvítyngi. Jafnframt þarf að leggja áherslu á að þekking og reynsla innflytjenda sé metin.

Helstu áskoranir á Íslandi eru:

 • Efla læsi og tryggja framtíð íslenskrar tungu
 • Fjölga kennurum
 • Fjölga nemendum í verk- og tækninámi
 • Vinna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum
 • Menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku

 

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Þrátt fyrir verulegar úrbætur alþjóðlega í aðgengi barna að grunnskólamenntun vantar töluvert upp á að alþjóðlegum þróunarmarkmiðum sé náð og er gæði menntunar víða ábótavant. Menntun er því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands. Áhersla er lögð á menntun barna ásamt uppbyggingu fagþekkingar innan áherslusviða Íslands, en um þessar mundir rekur Ísland meðal annars menntaverkefni í Malaví, Úganda og í Palestínu. 

Íslensk stjórnvöld styðja einnig við starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en fagfólk frá þróunarlöndum hefur þann möguleika að læra við skólana endurgjaldslaust. Skólarnir vinna að uppbyggingu fagþekkingar í þróunarlöndum í málefnum jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis og stuðla þannig jafnframt að framgangi annarra markmiða. Ísland tekur ennfremur þátt í ýmiss konar alþjóðlegri samvinnu á sviði kennaramenntunar. 

 

Menntun fyrir alla

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. 

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.  

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. 

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi. 

4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður. 

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.a Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir. 

4.b Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.c Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Alþjóða heilbrigðisdagurinn

COVID-19 Hjúkrunarfólk
Mynd: Landsspítali/Þorkell Þorkelsson

 

Að njóta heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi. Í dag, þann 7. apríl, fögnum við Alþjóða heilbrigðisdeginum. Í tilefni dagsins hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) veraldarleiðtoga til þess að tryggja þessi réttindi. Öllum ber að njóta aðgangs að grundvallar og gæða heilbrigðisþjónustu hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir búa. Enginn ætti að þurfa að sligast undan kostnaði.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á hversu brýnt er að öllum heimsbúum standi til boða læknismeðferð og nauðsynleg bóluefni sem gagnast samfélaginu í heild sinni.

Tryggja ber hverri einustu manneskju aðgang að góðri heilsugæslu án þess að verða fátækt að bráð.

Margir verða að borga offjár fyrir heilsuna

Langur vegur er frá því að heilbrigðisþjónusta standi öllum veraldarbúum til boða. Ein ástæða þess að margir mega þola örbirgð er sú að þeir verða að borga offjár fyrir heilsugæslu. Ekki nægir hins vegar að útvega heilbrigðisþjónustu til að ráða bót á allra brýnustu kvillum og slysum. Einnig ber að sinna forvörnum. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur veraldarleiðtoga til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru þegar heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Grípa þarf til raunhæfra aðgerða og gangast undir skuldbindingar til þess að efla heilbrigði fólks hvarvetna.  

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvetur til þess í ávarpi á Alþjóða heilbrigðisdaginn að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu.

“Nú þegar sér fyrir endann á COVID-19 faraldrinum ber að hrinda í framkvæmd stefnumörkun og tryggja fjármagn til þess að allir njóti sömu heilbrigðis-úrræða… Við skulum skuldbinda okkur á Alþjóða heilbrigðisdeginum að vinna saman að heilbrigðari og sanngjarnari heimi.”

10. æskulýðsráðstefna Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC)

Æskulýðsráðstefna Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) hefst í dag og stendur yfir dagana 7. og 8. apríl 2021. Ráðstefnan fer fram á netinu, er ókeypis og opin öllum. Hægt er að skoða dagskrá og taka þátt hér.

Ráðstefnan fagnar 10 ára afmæli sínu í ár, en hún hefur verið haldin árlega síðan 2011. Ráðstefnan veitir alþjóðlegan vettvang fyrir opinskátt samtal á milli aðildarríkja og ungra leiðtoga hvaðanæva að úr heiminum um lausnir á þeim áskorunum sem hafa áhrif á velferð ungs fólks. Hún veitir einnig einstakt rými fyrir ungt fólk til að deila sinni framtíðarsýn og aðgerðum, sem og til að fá æskulýðssjónarmið á framkvæmd Dagskrár 2030 og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í ár munu heildarþemu ECOSOC og HLPF (High-level Political Forum on Sustainable Development) fyrir árið 2021 stýra dagskrá ráðstefnunnar: „Sjálfbær og óbugandi endurheimt frá COVID-19 heimsfaraldrinum, sem stuðlar að efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum þáttum sjálfbærrar þróunar: Að byggja árangursríka leið til árangurs Dagskrár 2030 fyrir okkur öll, í samhengi við áratug aðgerða og framkvæmda fyrir sjálfbæra þróun.” Jafnframt verður hugað sérstaklega að þeim heimsmarkmiðum sem aðildarríkin hafa valið til ítarlegrar umræðu á HLPF 2021, þ.e. heimsmarkmið 1, 2, 3, 8, 10, 12, 13, 16 og 17.

Á ráðstefnunni munu æskulýðsleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum munu fá tækifæri til að eiga samskipti við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, fulltrúa ungmenna, stefnumótandi aðila og aðra viðeigandi hagsmunaaðila í borgaralegu samfélagi og einkageiranum. Opið er fyrir spurningar og geta allir tekið þátt.

Ráðstefnan er opin öllum og er hægt að finna dagskrá og taka þátt hér.

Áratugur hafrannsókna

Höfin og lífið í sjónum eiga sífellt meir undir högg að sækja vegna ágengni mannsins. Rannsóknir á hafinu skipta sköpum um skilning okkar á hafinu og liggja til grundvallar viðnámi gegn loftslagsbreytingum og Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað áratuginn 2021-2030 hafrannsóknum í þágu sjálfbærrar þróunar. Markmiðið er að vekja til vitundar, efla rannsóknir og vernd hafsins.

Áratugur hafsins er einstakt tækifæri fyrir þjóðir heims til að vinna saman að því að styðja alþjóðlegar hafrannsóknir í þágu sjálfbærrar þróunar úthafanna sem allt mannkyn deilir.

Heilbrigði hafanna 

Í Heimsmarkmiði 14 – Líf í vatni – er mörkuð sú stefna að  vernda beri og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun. Það tengist sjálfbærum hagvexti, upprætingu fátæktar, fæðuöryggi og sjálfbæru lífsviðurværi.

Sjónum stafar meðal annars ógn af loftslagsbreytingum, mengun sjávar, ósjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar og breytingum og eyðileggingu landslags og umhverfis stranda og sjávar. Rýrnun og eyðilegging vistkerfa stranda og sjávar hafa skaðað lífsgæði fólks um víða veröld.

Höfin okkar hafa margvísleg áhrif á líf okkar. Sjórinn drekkur í sig 90% af hita sem lokast inni vegna áhrifa losunar gróðurhúsalofttegunda. Hann verður fyrir barðinu á loftslagsbreytingum af miklum þunga. Hafið virkar líka sem flutningskerfi og hitastillir jarðar og er hreyfiafl veðurfars og loftslags.

Að efla hafrannsóknir 

Allir jarðarbúar deila hafinu enda styður það líf á jörðinni. Engu að síður er það að miklu leyti ókannað. Hafið liggur til grundvallar nær allra Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og því skiptir þekking á því sköpum um framgang þeirra.Heilbrigði og fjölbreytni lífríkis sjávar er þýðingarmikð því mannkynið reiðir sig á margan hátt á hafið og þær vörur og þjónustu sem þangað má sækja.

Þrátt fyrir mikilvægi hafsins eru hafrannsóknir vanfjármagnaðar. Þá er kunnátta, fjármagn og hæfni misskipt á milli heimshluta að því er fram kemur í Alþjóðlegri hafrannsóknaskýrslu UNESCO. 82% allrar útgáfu um vísindi hafsins mátti rekja til aðeins 45 ríkja á árabilinu 2010-2018. Norðurlöndin státa af einhverju hæsta hlutfalli vísindamanna á þessu sviði miðað við höfðatölu. Þar að auki liggja upplýsingar um hafið ekki alltaf á lausu. Gegnsæi er mikilvægt í vísindum til þess að hægt sé að bregðast við vanda.

Ekki er síður mikilvægt að efla alþjóðlega samvinnu enda er það eitt helsta markmið áratugar hafsins. Markmiðið er að greiða fyrir tengslum á milli vísindarannsókna og nýsköpunar í vísindum hafsins annars vegar og þarfa samfélagsins hins vegar. Þannig getur áratugur hafsins virkað sem sameiginlegur rammi til að tryggja að haffræði styðji ríki við að framfylgja Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Áratugurinn framundan

Áratug sjávar ber að vera aflvaki breytinga og efla og greiða fyrir vísindum hafsins. Það ber að gera á djarfan og framsýnan hátt með samstarfi fræðigreina og nýtingu staðbundinnar þekkingar, sérstaklega frumbyggja. Þá ber að hafa kynslóða-, kynbundna-, og landfræðilega þætti í huga í öllum aðgerðum. Mikilvægt er að áratugur hafsins, hvort heldur sem er aðgerðir eða niðurstöður hans, feli í sér annað og meira en kyrrstöðu. Brýn þörf er á byltingu í vísindum sjávar.

Rétt er að nota niðurstöður síðustu skýrslu um stöðu vísinda hafsins til grundvallar til að meta árangur. Enn á síðan eftir að meta áhrif COVID-19 faraldursins á hafið.

Jafnréttisráðstefnan: Kynslóð Jafnréttis 29.-31. mars

Alþjóðlega jafnréttisráðstefnan Kynslóð jafnréttis stendur dagana 29. – 31. mars. Ráðstefnan er haldin á Zoom – Ókeypis og öllum opin. Opið er fyrir skráningu hér.

Ráðstefnan er fyrri hluti átaksverkefnisins Kynslóð jafnréttis sem ýtt var úr vör af UN Women í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking og samþykktar framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál (Pekingáætlunin). UN Women efnir til átaksins í samstarfi við ríkisstjórnir Mexíkó og Frakklands.

Markmið ráðstefnunnar er að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur, nú fimm árum eftir að ríki heims komu sér saman um Heimsmarkmiðin. Í ljós hefur komið að Heimsmarkmið 5 – Jafnrétti Kynjanna, er það markmið sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga lengst í land með. Nú þegar er ljóst að heimsfaraldurinn COVID-19 hefur hægt enn frekar á vinnu aðildarríkjanna að því að ná fimmta markmiðinu því merkja má bakslag í jafnréttismálum. Tilkynningum um kynbundið ofbeldi gegn konum hefur fjölgað gríðarlega síðan heimsfaraldurinn braust út, aukning hefur orðið í barnabrúðkaupum og ótímabærum þungunum ungra stúlkna, auk þess sem óttast er að milljónir stúlkna fái ekki tækifæri til að snúa aftur til skóla eftir heimsfaraldurinn.

Hvað er Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality)?

Generation Equality eða Kynslóð jafnréttis er átak UN Women sem Mexíkó og Frakkland leiða. Markmiðið er að láta raunveruleg réttindi kvenna verða að veruleika og tryggja kynjajafnrétti.

Átakinu Kynslóð jafnréttis verður hleypt af stokkunum í Mexíkó og er markmið fundarins að:

 • Kynna afurðir sex aðgerðabandalaga Kynslóðar jafnréttis og kalla eftir bráðum aðgerðum til framkvæmdar og fjármagns.
 • Þróa marghliða femíníska dagskrá til að skerpa á framtíðarsýn Generation Equality Forum sem haldið verður í París.
 • Samþætta fjölþjóðlegt bandalag ríkja til að stuðla að jafnréttisáætlun í öllum ríkjum.
 • Á ráðstefnunni fara fram umræður sem fjalla um skipulegar og kerfislegar hindranir sem koma í veg fyrir raunverulegt jafnrétti kynja og mannréttindi kvenna og stúlkna.
 • Ráðstefnan felur í sér raunverulegt tækifæri til að stuðla að fullri framkvæmd Peking áætlanarinnar.

Markmið ráðstefnunnar er að styrkja rödd feminískra ungmenna- og kvennasamtaka og hreyfinga um allan heim og eiga samtal við mismunandi hagaðila frá aðildaríkjum, einkageiranum og alþjóðastofnunum.

Á fundinum kynna sex aðgerðabandalög Kynslóðar jafnréttis (e. Action Coalitions of Generation Equality) markmið sín til næstu fimm ára:

 1. Aðgerðabandalag gegn kynbundnu ofbeldi (e. Gender-based Violence)
 2. Aðgerðabandalag um efnahagsleg réttindi og réttlæti (e. Economic justice and rights)
 3. Aðgerðabandalag um líkamlegt sjálfræði og kyn- og frjósemisréttindi (SRHR) (e. Bodily autonomy and sexual and reproductive health and rights)
 4. Aðgerðabandalag um feminískar aðgerðir í þágu loftslagsréttlætis (e. Feminist action for climate justice)
 5. Aðgerðabandalag um tækni og nýsköpun í þágu kynjajafnréttis (e. Technology and innovation for Gender Equality)
 6. Aðgerðabandalag um feminískar hreyfingar og forystu (e. Feminist movements and leadership)

Ísland er meðal forysturíkja átaksins og leiðir aðgerðabandalagið um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi ásamt Bretlandi, Kenía og Úrúgvæ.

Fjögur markmið aðgerðabandalags gegn Kynbundnu ofbeldi verður kynnt á fundinum. Fyrir málflutningi íslenskra stjórnvalda fara tvær starfskonur UN Women á Íslandi, en þær eru áheyrnarfulltrúar Stýrihóps íslenskra stjórnvalda sem vinnur að samþættingu aðgerða.

Ég vil skrá mig á fundinn

Alþjóða ferskvatnsdagurinn

Ferskvatn er lífsnauðsynlegt fyrir líf okkar, heilsu og velferð. Það er nauðsynlegt vegna hreinlætis, til matargerðar- og framleiðslu. Engu að síður hafa 2.2 milljarðar manna ekki aðgang að öruggu ferskvatni. Í dag, 22. mars, fögnum við alþjóða ferskvatnsdeginum, en megináhersla hans er að stuðla að heimsmarkmiði 6: hreint vatn og hreinlætisaðstaða fyrir alla fyrir árið 2030.

Brýnt er að almenningur og stjórnendur vinni saman að því að vernda það ferskvatn sem til er í heiminum, nýti það á ábyrgan hátt og endurvinni með skilvirkum hætti. Aðgangur allra að ferskvatni er frumskilyrði þess að hægt sé að stöðva útbreiðslu heimsfaraldra, líkt og COVID-19. Jafnframt hefur aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu verið viðurkenndur sem mannréttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn

Þá er kastljósinu beint að vatni sem grundvelli góðs lífs og velmegunar. Ferskvatns er þörf hvarvetna, þar á meðal í landbúnaði, umhverfi, heilbrigði og viðskiptum. Ferskvatnsdagurinn á rætur að rekja til Leiðtogafundar Jarðar í Rio de Janeiro og er markmið hans að efla ábyrga nýtingu vatns.

Vernda ber vatnsból til að tryggja framgang heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og tryggja öllum jarðarbúum aðgang að hreinu og öruggu vatni. Ósjálfbær vatnsnotkun og loftslagsbreytingar eru skyld fyrirbæri og takast verður á við þau samtímis.

Nýta ber tæknilegar nýjungar og aðferðir til þess að nýta vatnsbirgðir á ábyrgan hátt, bæði með því að auka skilvirkni og endurnýta. Heimsmarkmið númer 6 leggur áherslu á vandamál við núverandi vatnsnotkun, sem og að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að ferskvatni sem skiptir sköpum í okkar daglega lífi.

Vatnsskortur

Skortur á aðgangi að vatni skapar hættu, ekki síst í þróunarríkjum. Dag hvern deyja um það bil eitt þúsund börn vegna þess að þau fengu ekki nægt öruggt drykkjarvatn. Heilbrigði og velferð samfélaga er stefnt í hættu vegna skorts á ferskvatni. Milljónir verða að gera sér að góðu að ganga örna sinna á víðavangi.

Vatn er þýðingarmikið í því að uppræta heimsfaraldurinn sem kenndur er við COVID-19. Handþvottur er eitt þeirra ráða sem til eru, til að forðast smit. Torvelt er að uppræta faraldurinn fyrr en allir jarðarbúar hafa aðgang að hreinu vatni.

Í tilefni alþjóða ferskvatnsdagsins verður ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna kynnt þar sem tekin eru saman helstu ráð handa almenningi og þeim sem taka stefnumarkandi ákvarðanir um hverju þarf að breyta um notkun og stýringu vatnsnotkunar.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn á samfélagsmiðlum

Hægt er að fylgjast með því hvernig haldið er upp á alþjóða ferskvatnsdaginn á twittersíðu UN Water.

Hvatt er til þess að helstu skilaboðum sé komið á framfæri undir myllumerkjunum #SafeHands og #WORLDWATERDAY.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn tengist öðrum alþjóðlegum dögum, þar á meðal alþjóðlega klósettdeginum  en þá er beint sjónum að sómasamlegri hreinlætisaðstöðu fyrir fólk um allan heim. Þá er ástæða til að nefna alþjóðlegan baráttudag gegn eyðimerkurmyndun.

Alþjóða hamingjudagurinn

Í dag, 20. mars, fögnum við alþjóða hamingjudeginum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert síðan 2013 til að minni á mikilvægi hamingjunnar í lífi hvers einasta einstaklings um heiminn allan. 

Það var Bútan sem bar fram ályktunina um að Sameinuðu þjóðirnar skyldu halda alþjóðlegan hamingjudag. Þetta smáríki í Himalajafjöllunum hefur barist fyrir því að hamingja þjóða sé meira virði en auður eins og hann hefur verið mældur í þjóðarframleiðslu frá því snemma á áttunda áratugnum. Í Bútan hefur verg hamingja leyst verga þjóðarframleiðslu af hólmi sem mælikvarði um framfarir.

Hamingjan er nátengd heimsmarkmiðunum, sem leitast við að binda enda á fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna okkar – þrír lykilþættir vellíðunar og hamingju. Í ár setjum við hamingjuna í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, og heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna.

Málþing um hamingju, svefn og velsæld

Félag Sameinuðu þjóðanna, ásamt Embættis landlæknis, Forsætisráðuneytinu og Endurmenntun Háskóla Íslands stóðu að rafrænu málþingi í tilefni af alþjóðadögum um svefn (19. mars) og hamingju (20. mars). Málþingið var haldið þann 19. mars undir yfirskriftinni Hamingja, svefn og velsæld og var það tekið upp. Hægt er að horfa á málþingið hér.

Á málþinginu var hamingjan sett í samhengi við heimsmarkmið 3 – Heilsa og vellíðan, sem og fjallað var um mikilvægi svefns til að stuðla að heilsu, hamingju og vellíðan. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnaði málþingið þar sem hún ræddi mikilvægi þess að hugað sé að því hvernig hægt sé að auka lífsgæði og hamingju fólks. Ekki sé hægt að fylgjast aðeins með efnahagsvísum, það sé alveg jafn mikilvægt að passa upp á velsældarvísana.

Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, lagði áherslu á að velsæld væri gerð að markmiði í stefnumótun og lagt væri upp með vellíðan fyrir alla, ekki aðeins suma. Jafnframt ítrekaði hún tengsl svefns við hamingju og velsæld, sem aukast með auknum svefni þar til ráðlögðum svefni væri náð.

Hamingjan í heimi án jafnréttis

Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, var með erindi á málþinginu og lagði áherslu á tengsl hamingjunnar við heimsmarkmið 5 – Jafnrétti kynjanna. Hér má lesa útdrátt úr erindi hennar í tilefni dagsins.

Ég er þeirrar skoðunar að sjálfbær þróun sé leiðin að hamingjunni. Farsæl samfélög þar sem að íbúar búa við velsæld og öryggi, mannréttindi eru virt og dregið hefur úr mengun geta bara orðið til með sjálfbærri þróun. En hvað er sjálfbær þróun? Sjálfbær þróun er þróun sem mætir nútíma þörfum án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á því að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld til langs tíma fyrir alla jarðarbúa

Já hamingjan er ekki mæld með hagvísum. Verg þjóðarframleiðsla segir ekkert um hamingju þjóðar. Það er ekki hægt að kaupa hamingjuna – eða jú, ríki geta fjárfest í hamingju íbúa sinna með því að fjármagna verkefni sem ýta undir og stuðla að sjálfbærri þróun.

Grunn þörfum okkar þarf að vera mætt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru einmitt til þess fallin að mæta grunnþörfum allra jarðarbúa, auka jöfnuð, útrýma fátækt og hungri, efla mannréttindi, tryggja aðgengi að góðri menntun og atvinnutækifærum, efla heilsu fólks – bæði líkamlega og andlega – og vernda náttúruna, draga úr sóun og losun koldíoxíðs.

Mig langar að taka heimsmarkmið 5 fyrir sérstaklega og tengja það við hamingju, svefn og vellíðan. Nú stendur yfir 65. Fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem staða kvenna er rædd. Mikil áhersla er á versnandi stöðu kvenna í heiminum í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 og er það áhyggjuefni að staða kvenna fer versnandi en ekki batnandi. Það er nefnilega ekki hægt að ná heimsmarkmiðunum nema með því að uppfylla heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna.

COVID-19 er að steypa æ fleirum í sárafátækt og eru áhrifin einna mest á konur. Það er áætlað að á þessu ári búi um 435 milljón kvenna og stúlkna við sárafátækt og 47 milljónir af þeim séu í þeirri aðstöðu vegna COVID-19.  

Konur eru 27% líklegri en karlmenn til þess að búa við alvarlegt mataróöryggi. Það er áætlað að þetta bil breikki vegna COVID-19.

Konur í heilbrigðisþjónustu eru í framlínunni í baráttunni við COVID-19 og eru því í aukinni hættu á að smitast. Í þeim ríkjum þar sem gögn eru aðgengileg um COVID-19 smit á meðal heilbrigðisstarfsfólks eru 72% smitaðra konur.

Skólalokanir eru líklegar til þess að auka kynjabilið þegar kemur að menntun. 11 milljónir stúlkna á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi eiga á hættu að snúa ekki aftur til náms.

Það er áætlað að 243 milljónir kvenna og stúlkna hafi orðið fyrir kynferðislegu og/eða líkamlegu ofbeldi að hálfu maka á síðasta ári.

Að minnsta kosti 200 milljónir kvenna hafa orðið fyrir limlestingu kynfæra samkvæmt gögnum frá 31 ríki þar sem að þessi hefð viðgengst.

1 af hverjum 5  konum á aldrinum 20-24 ára voru giftar í barnæsku. Tíðni Barnahjónabanda og limlesting kynfæra kvenna var á niðurleið fyrir heimsfaraldurinn en efnahagslegar afleiðingar og truflanir á skólastarfi geta snúið þeirri þróun við.

Konur eyða 3x fleiri klukkustundum en karlmenn á dag við ólaunuð störf og heimilisstörf. COVID-19 eykur álagið á konur enn frekar.

1 af hverjum 4 þingsætum í heiminum eru í höndum kvenna.

Samkvæmt gögnum frá 57 ríkjum þá segja 3 af hverjum 4 konum þær taka ákvarðanir um eigin heilsu og hvort þær stundi kynlíf eða ekki.

72% fólks sem gegnir heimilisstörfum / heimilishjálp, meiri hluti þeirra konur, hafa misst vinnuna eða vinnustundum þeirra hefur fækkað vegna COVID-19.

Konur og stúlkur bera megin þungan af auknum hamförum af völdum loftslagsbreytinga en eru sjaldnast í aðstöðu til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP 25 – aðeins 21% sendinefnda voru leiddar af konum.

Í þeim ríkjum þar sem konur leiða ríkisstjórn eru staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 allt að 6 sinnum færri. Sömuleiðis þá hefur aðkoma kvenna í friðarviðræðum verið grundvöllur langvarandi samninga. Þrátt fyrir það, á árunum 1992-2009 voru konur aðeins 6% sáttasemjara og undirskriftaraðila og 13% samningarmanna í friðarferlum.

Ég spyr: hvernig eiga konur og stúlkur að sofa vært á nóttunni?

Hvernig geta konur og stúlkur fundið hamingjuna þegar að þær búa í stöðugum ótta um líkamlegt öryggi sitt?

Hvernig geta konur sofið rótt vitandi það að karlmaður í sama starfi fær hærri laun en hún?

Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að ef þeim er nauðgað er líklegt að gerandinn fái væga refsingu ef einhverja? Já eða refsing felld niður á æðra dómsstigi!

Hvernig geta konur og stúlkur sofið rótt vitandi það að þær þurfa að leggja harðar að sér en karlmaður til þess að þær séu teknar alvarlega? Hvers vegna skiptir útlit kvensérfræðinga svona miklu máli?

Hvernig geta konur fundið hamingjuna þegar að karlmenn taka credit fyrir hugmyndir þeirra og skoðanir?

Ég veit að við viljum öll búa í samfélagi og heimi þar sem að öllum líður vel, allir hafa jöfn tækifæri og búa við öryggi og velsæld. Til þess að við náum því þá verðum við að gera enn betur í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

65. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW65)

65. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW65) hófst 15 mars síðastliðinn. Fundur Kvennanefndar SÞ er fjölmennasti fundur baráttunnar fyrir auknu jafnrétti og bættri stöðu kvenna og sem haldinn er árlega í New York. Vegna COVID-19 fer fundurinn aðallega fram á fjarfundaform

Mynd frá skipulagsfundi Íslands í tilefni CSW65

Fólk hvaðan er úr heiminum sækir fundinn, þeirra á meðal eru þjóðarleiðtogar, aðilar frjálsra félagasamtaka, starfsfólk fastanefnda ríkja og aktívístar grasrótarhreyfinga.

 

Þema fundarins í ár er:

 

Árangursrík og full þátttaka kvenna við ákvarðanatökur í opinberu lífi og útrýming ofbeldis, til að ná jafnrétti og valdeflingu allra kvenna og stúlkna.

 

Nýútkomin gögn sýna að framfarir í jafnréttismálum eru alltof of hægar:

 

 • Konur fylla aðeins 25% þingsæti á heimsvísu
 • Aðeins þrjú lönd hafa 50% eða fleiri konur á þingi, innan við eitt prósent eru konur yngri en 30 ára
 • Konur eru aðeins 13 prósent samningsaðila, 6% sáttasemjara og aðeins 6% undirritaðra í formlegum friðarferlum
 • Árið 2020 voru aðeins 7,4% af Fortune 500 fyrirtækjum rekin af konum
 • Aðeins 22 lönd í heiminum eru leidd af konum
 • Í úttekt UN Women sem gerð var í 87 löndum varðandi forystu og þátttöku kvenna við ákvarðanatökur í viðbrögðum við COVID-19 kom í ljós að í aðeins 3,5% þeirra ríkja mældist kynjajöfnuður við ákvarðanatökur.

 

Aukin tíðni heimilisofbeldis vegna útgöngubanna, konur minna lífsviðurværi sín frekar og hraðar þar sem þær eru berskjaldaðri fyrir efnahagshöggum, aukin byrði á herðum kvenna í heimilis- og umönnunarstörfum sýna allt fram á ólík áhrif faraldursins á líf kvenna og stúlkna.

Samkvæmt UN Women mun faraldurinn þrýsta 47 milljónum kvenna og stúlkna til viðbótar í sárafátækt svo í heildina munu 435 milljónir kvenna og stúlkna lifa í sárafátækt 2021, þ.e. 13% kvenþjóðar heimsins.

 

Við hjá SÞ á Íslandi búumst við kraftmiklum fundi í ár þar sem hann er sérstaklega mikilvægur í ljósi COVID-19 og þess bakslags sem á sér stað í jafnréttismálum á heimsvísu.

 

Aukin réttindi og bætt staða kvenna og stúlkna er lykilþáttur í uppbygginga ríkja í kjölfar heimsfaraldursins. Við væntum þess að að sjá skýrar kröfur kvennahreyfingarinnar og jafnréttissamtaka lagðar fram sem munu þrýsta sem aldrei fyrr á ríki heims að kynjamiða aðgerðir og skilja engan eftir í aðgerðaráætlunum við uppbyggingu í kjölfar heimsfaraldursins.

 

Við trúum því að nú sé tækifæri ríkja heims til að gera jafnrétti, fimmta heimsmarkmiðið,  þverlægt í öllum aðgerðum og opna augun fyrir því að konur og stúlkur er rúmur helmingur mannkyns, sem nýtur ekki grundvallarmannréttinda.

Sjá Dagskrá

Hugvekja Ölmu Möller um heimsmarkmið SÞ

„Ég hvet alla til að kynna sér og vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en með þeim er stuðlað að verndun og sjálfbærni jarðar, að því að útrýma fátækt og misrétti, og að því að bæta heilsu og vellíðan jarðarbúa. Við verðum öll að leggja okkar að mörkum, byrja á að líta í eigin barm og skoða hvað hver og einn getur gert til að hlúa að umhverfinu og eigin heilsu. Hugsum líka hvert um annað og skiljum engan eftir. Þannig stuðlum við að betri framtíð og verðum samfélaginu öllu til gagns.”

Sagði Alma Möller, landlæknir, í hugvekju sinni í tilefni Kvennadagsins þann 21. febrúar. Þar fjallaði hún m.a. um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Hægt er að hlusta á hugvekjuna í heild sinni hér. Kafli um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hefst á mínútu 41:40.

Heimsmarkmiðin – 3. Heilsa og vellíðan

Að stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar

Nú þegar marsmánuður er genginn í garð kynnum við þema mánaðarins, sem er heimsmarkmið 3 – heilsa og vellíðan.

Út árið munum við kynnast heimsmarkmiðunum betur í gegnum þema hvers mánaðar. Birt verður grein um eitt af heimsmarkmiðunum, ítarefni, upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðunum og lagt sitt að mörkum til sjálfbærrar þróunar. Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig er hægt að innleiða þau í framtíðarstefnu og starfsemi.

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á árar getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags-umhverfisbreytingar, efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.

Óhætt er að að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu yfir öll mörk og mæri svo að það verði mögulegt.

3. Heilsa og vellíðan


Almenn góð heilsa og vellíðan eru mikilvægir þættir í vegferðinni að markmiðum sjálfbærrar þróunar. Á undanförnum árum hafa stór skref verið stigin í því að bæta lífslíkur fólks, til dæmis með því að draga úr mæðra- og ungbarnadauða og koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Dauðsföllum af völdum malaríu hafa helmingast og straumhvörf hafa átt sér stað í baráttunni gegn HIV. 

Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu heilbrigðismála segir að heilbrigðari lífshættir, hærri tekjur og betri menntun, ásamt betri heilbrigðisþjónustu hafi stuðlað að aukinni meðalævilengd á síðustu áratugum. Enn er þó verk að vinna til að tryggja heilsu og vellíðan stærri hóps mannkyns en nú nýtur þeirra gæða þar sem árangur hefur verið ójafn, bæði innan sem og á milli landa.

Lífslíkur Íslendinga eru með því hæsta sem gerist í heiminum. Meðalævilengd karla árið 2019 var 81,0 ár og meðalævilengd kvenna 84,2 ár. Staðreyndin er hins vegar sú að 31 ára bil er á lífslíkum á milli þeirra landa sem eru með stystu og lengstu lífslíkurnar. Á meðan sum lönd hafa náð gríðarlegum árangri, geta landsmeðaltöl falið það að oft eru margir sem sitja eftir.

Góð heilsa og vellíðan samtvinnast nefnilega öðrum heimsmarkmiðum, m.a. að enda fátækt, minnka ójöfnuð og vinna gegn loftslagsbreytingum. Staðreyndin er sú að a.m.k. 400 milljónir manna hafa engan aðgang að almennri heilbrigðisþjónustu, um 7 milljónir dauðsfalla má rekja til mengunar ár hvert, sem og yfir 1 af hverjum 3 konum hafa upplifað kynbundið ofbeldi sem getur haft langvarandi áhrif á líkamlega- og andlega heilsu þeirra, sem og á kynheilbrigði. Nauðsynlegt er að beita margskiptum, réttindamiðuðum og kynjuðum aðferðum til að takast á við ójöfnuð og stuðla að góðri heilsu og vellíðan fyrir alla.

Áhrif Covid-19

Heilsufarslegt neyðarástand líkt og Covid-19 heimsfaraldurinn skapar alvarlegt hættuástand á alþjóðavísu og sýnir fram á nauðsyn viðbúnaðar. Faraldurinn hefur haft í för með sér stórfellt manntjón um allan heim, rúmlega 115 milljón einstaklingar hafa greinst smitaðir af Covid-19 og dauðsföll eru orðin fleiri en 2,5 milljón. Fjölmargir þjást jafnframt af langvarandi einkennum Covid-19.

Afleiðingar faraldursins eru þó ekki einungis líkamlegar. Félagsleg einangrun, ótti við smit og alvarleg veikindi nákominna, atvinnuleysi og fátækt – allt eru þetta þættir sem ógna geðheilbrigði fólks á tímum Covid-19. Áhrif faraldursins á andlega heilsu er mikið áhyggjuefni og hefur t.a.m. verið greint frá því að kvíði og einmanaleiki hafi aukist til muna hjá börnum og ungmennum. 

Embætti Landlæknis hefur gefið út tíu heilræði til að hlúa að heilsu og vellíðan á tímum Covid-19:

 1. Hlúum vel að okkur sjálfum og okkar nánustu
 2. Verum þakklát fyrir það sem við höfum
 3. Borðum hollan og góðan mat daglega
 4. Hreyfum okkur rösklega á hverjum degi
 5. Stuðlum að betri svefni með góðum svefnvenjum
 6. Forðumst að nota áfengi eða tóbak sem bjargráð
 7. Sýnum samfélagslega ábyrgð og fylgjum fyrirmælum
 8. Höldum áfram að læra og komum hlutum í verk
 9. Gefum af okkur – sýnum góðvild og samkennd
 10. Njótum augnabliksins – hér og nú

Heimsfaraldurinn hefur jafnframt varpað ljósi á gífurlegt misræmi í getu landa til að takast á við og jafna sig eftir faraldurinn. Almennri starfsemi heilbrigðisstofnana hefur verið raskað um allan heim, jafnvel þar sem innviðir voru sem sterkastir. Lífsnauðsynlegum aðgerðum hefur verið frestað, bólusetningar barna hafa verið lagðar af og skimanir fyrir krabbameini hafa verið stöðvaðar. Sjúkrahús hafa á mörgum stöðum þurft að vísa alvarlega veiku fólki frá þar sem þau eru yfirfull. Skýrsla um framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2020 varar við því að þessar truflanir á heilbrigðisþjónustu geti snúið við áratuga framförum og haft áhrif á heilsufar fólks um ókomin ár.

Mikilvægi sterkra innviða í heilbrigðisþjónustu og aðgengi allra að henni hefur verið sannað. Heimsfaraldurinn veitir tímamót fyrir viðbúnað við heilsufarslegu neyðarástandi og fjárfestingu í nauðsynlegri opinberri heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er að bregðast við.

Staðan á Íslandi

Lífslíkur Íslendinga eru með því hæsta sem gerist í heiminum og um þrír af hverjum fjórum fullorðinna (74%) á Íslandi töldu sig við góða eða mjög góða heilsu árið 2017. Í alþjóðasamanburði stendur Ísland mjög vel þegar kemur að heilsu og vellíðan. 

Þrátt fyrir þetta er þó ekki svo að heimsmarkmiði þrjú um heilsu og vellíðan hafi verið fullnægt, en eitt af megin markmiðum heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir. Sérstaklega þarf að huga að þörfum viðkvæmra hópa og jaðarsettra í samfélaginu og aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð stöðu og búsetu. 

Leggja þarf frekari áherslu á geðheilbrigðismál þar sem geðheilbrigði Íslendinga, sér í lagi ungmenna, fer hrakandi. Kvíði og þunglyndi eru að aukast og illa virðist ganga að takast á við vandann. Covid-19 heimsfaraldurinn hefur bætt gráu ofan á svart og nauðsynlegt er að bregðast við. Brýnt er að auka geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna að fullu.

Smitvana sjúkdómar, þ.e. langvinnir sjúkdómar sem smitast ekki en hafa samt sem áður mikil áhrif á heilsufar og geta tengst lífsstíl, er jafnframt brýnn vandi á Íslandi. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á forvarnir, fræðslu og fordómalausa meðhöndlun.

Umhverfisáhrif eru jafnframt stækkandi heilsufarsvandi, en hreint umhverfi er nauðsynlegt fyrir heilsu og velferð. Nálægt umhverfi getur verið uppruni margra streituvalda – til dæmis loftmengun, hávaði, hættuleg efni – sem hafa neikvæð áhrif á heilsu. Talið er að rekja megi allt að 70 dauðsföll á Íslandi á ári vegna mengunar.

Fullnægjandi mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur loks reynst stór áskorun á Íslandi. Vandinn gæti haft neikvæð áhrif á þróun greiningar og meðferðar sjúkdóma, takist ekki að tryggja fullnægjandi mönnun með nauðsynlegu starfsfólki.

Helstu áskoranir á Íslandi eru:

 • Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar 
 • Framboð og aðgengi að  úrræðum og þjónustu eftir landsvæðum 
 • Langvinnir sjúkdómar sem tengja má við lífsstíl
 • Framboð á nýjum lyfjum og ofnotkun sýklalyfja 
 • Útgjöld til heilbrigðismála 
 • Mönnun heilbrigðisþjónustu

Á alþjóðlegum vettvangi

Í þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á að bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, þar á meðal með bættu aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu. 

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á lýðheilsu í Malaví til að draga úr mæðradauða og fjármögnuðu meðal annars byggingu biðskýla fyrir verðandi mæður í dreifbýli í Mangochi-héraði, auk þess sem byggð hefur verið héraðsfæðingardeild með biðskýli, ungbarnaeftirlits- og fjölskylduáætlunardeild við héraðssjúkrahúsið. Til viðbótar hefur tilvísunarkerfið verið bætt með ellefu nýjum sjúkraflutningabílum, þannig ef upp koma bráða- eða áhættufæðingar á fæðingardeildum úti í sveitunum er auðveldara að bregðast við í tæka tíð og koma konum til héraðssjúkrahússins. Nú hafa um 80% kvenna í héraðinu aðgang að fæðingarþjónustu með góðri aðstöðu fyrir mæður, nýbura og aðstandendur þeirra. Með samstilltu átaki hefur stjórnvöldum og samstarfsaðilum í Mangochi-héraði tekist að lækka tíðni mæðradauða um 37% síðastliðinn áratug.   

Í Malaví hefur stjórnvöldum og samstarfsaðilum jafnframt tekist að lækka tíðni barnadauða um 49% frá 2010 til 2015.  Íslensk stjórnvöld fjármagna margvíslegar aðgerðir heilbrigðisyfirvalda gegn ungbarna- og nýburadauða í Mangochi-héraði, þar á meðal styrkingu heilbrigðisþjónustu í mesta strjálbýlinu, sem veitt er af hartnær 600 heilsuliðum sem hafa fengið þjálfun á undanförnum árum.

Á seinustu árum hefur Ísland þar að auki lagt til mannúðarfjármuni til UNICEF í Sýrlandi og til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum og til UNFPA í Jemen til að draga úr ungbarna- og mæðradauða í viðkomandi löndum þar sem neyðin er mikil. Ísland hefur stutt við verkefni UNFPA í Sýrlandi, en af árangri stofnunarinnar í Sýrlandi má nefna að árið 2016 fengu tvær milljónir sýrlenskra kvenna aðgang að lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu í Sýrlandi, Egyptalandi, Írak, Jórdaníu og Tyrklandi. Ísland styður einnig UNICEF á sviði heilbrigðismála í Palestínu og kostaði meðal annars úttekt árið 2018 á verkefni sem Ísland studdi á árunum 2011-2015 um heimavitjun til ungbarna og sýndu niðurstöður hennar jákvæð áhrif verkefnisins á að draga úr mæðra- og ungbarnadauða. 

Í þróunarsamvinnu Íslands er einnig lögð rík áhersla á kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi. Árið 2017 þrefaldaði Ísland kjarnaframlag til Mannfjöldasjóðs SÞ (UNFPA) en hlutverk sjóðsins er að tryggja kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi í þróunarríkjum og styðja þau við stefnumótun og framkvæmd verkefna sem beinast að því að útrýma fátækt, að gera getnaðarvarnir aðgengilegar, fæðingar öruggar og draga úr HIV smiti. Mikilvægir þættir starfseminnar eru réttindi mæðra og barna til heilsuverndar, ungbarnavernd, dreifing getnaðarvarna og kynlífs- og fjölskyldufræðsla. 

Á alþjóðavettvangi er ennfremur lögð rík áhersla á mikilvægi forvarna, lækningar og meðferðar við taugasjúkdómum, sérstaklega mænuskaða. Sérstaklega hefur verið unnið að því að auka samstarf Norðurlandanna á þessu sviði í því augnamiði að auðvelda rannsóknir á sviðinu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa íslensk stjórnvöld vakið sérstaka athygli á málaflokknum í tengslum við umferðaröryggi og ósmitbærra sjúkdóma. 

 

Heilsa og vellíðan

3.1 Eigi síðar en árið 2030 verði dauðsföll af völdum barnsburðar í heiminum komin niður fyrir 70 af hverjum 100.000 börnum sem fæðast á lífi.

3.2 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir nýburadauða og andlát barna undir fimm ára aldri, sem unnt er að afstýra, og stefnt að því að öll lönd nái tíðni nýburadauða niður í 12 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi og dánartíðni barna undir fimm ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi. 

3.3 Eigi síðar en árið 2030 verði búið að útrýma farsóttum á borð við alnæmi, berkla, malaríu og hitabeltissjúkdóma, sem ekki hefur verið sinnt, og barist verði gegn lifrarbólgu, vatnsbornum faraldri og öðrum smitsjúkdómum. 

3.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan. 

3.5 Efldar verði forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis. 

3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu. 

3.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilbrigðisþjónustu á sviði kynheilbrigðis, meðal annars fyrir þá sem ætla að stofna fjölskyldu, og fræðsla og upplýsingagjöf veitt því tengdu. Tryggt verði að kynheilbrigði verði fellt inn í landsáætlanir. 

3.8 Komið verði á heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð fjárhagslegri stöðu, aðgengi veitt að góðri og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að öruggum, virkum og nauðsynlegum lyfjum og bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir alla

3.9 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir, svo um munar, dauðsföll og veikindi af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar. 

3.a Rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir verði hvarvetna hrundið í framkvæmd, eftir því sem við á.  

3.b Stutt verði við rannsóknir og þróun bóluefna og lyfja gegn smitsjúkdómum og öðrum sjúkdómum sem herja einkum á fólk í þróunarlöndum, aðgengi verði veitt að nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum á viðráðanlegu verði samkvæmt Dohayfirlýsingunni um TRIPS-samninginn og lýðheilsu sem staðfestir rétt þróunarlanda til þess að nýta sér til fulls ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum í því skyni að vernda lýðheilsu og einkum og sér í lagi aðgengi allra að lyfjum. 

3.c Talsvert verði aukið við fjármagn til heilbrigðismála sem og til nýliðunar, þróunar og þjálfunar og til að halda í heilbrigðisstarfsfólk í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og þeim sem eru smáeyríki.  

3.d Öll lönd, einkum þróunarlönd, verði styrkt til að geta brugðist skjótt við og haft hemil á alvarlegri heilsuvá innan lands og á heimsvísu.