Heimsmarkmiðin – 1. Engin fátækt

Að útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar

 Árið 2021 ætlar Félag Sameinuðu þjóðanna að hafa þema mánuð um hvert heimsmarkmið.

Birt verður mánaðarlega grein um eitt af heimsmarkmiðunum, ítarefni, upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðunum, lagt sitt að mörkum til sjálfbærrar þróunar. Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig er hægt að innleiða þau í framtíðarstefnu og starfsemi.

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á árar getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftlags-umhverfisbreytingar, efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.

Óhætt er að að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu yfir öll mörk og mæri svo að það verði mögulegt.

 

1.Engin fátækt

Staðan á Íslandi

Helstu áskorarnirnar á Íslandi eru:

  • Styrkja stöðu fólks sem stendur höllum fæti, með sérstakri áherslu á börn
  • Útrýma launamun, meðal annars á grundvelli þjóðernisuppruna

Mikill árangur hefur náðst á heimsvísu í baráttunni gegn fátækt síðustu ár en COVID 19 hefur sett svip sinn á stöðu fátækra um heim allan. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd. COVID-19 hefur þrýst fólki niður í örbirgð sérstaklega í þróunarríkjum – hungur, húsnæðisleysi, skort á tryggri lífsafkomu, lélegt eða ekkert aðgengi að menntun, skort á heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu auk félagslegrar útskúfunar.

Ísland er velferðarríki á vestrænan mælikvarða og lífskjör íslenskra ríkisborgara því almennt talin góð samanborið við aðrar þjóðir heimsins. Nýjustu mælingar sýna að á Íslandi ríkir mestur tekjujöfnuður og minnst fátækt meðal Evrópuþjóða  en þrátt fyrir þær jákvæðu niðurstöður býr ákveðinn hópur fólks enn við efnislegan skort og fátækt. Eitt af megin markmiðum heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir og því er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi við innleiðingu fyrsta markmiðsins um að útrýma fátækt á Íslandi. Það getur verið vandkvæðum bundið að skilgreina fátækt, sér í lagi er kemur að alþjóðasamanburði. Það er stefna stjórnvalda að styrkja sérstaklega stöðu fólks sem stendur höllum fæti og gera tillögur til úrbóta á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu og útrýma fátækt í öllum myndum.

 

Fátækt sýnileg, áþreifanleg og fer vaxandi

Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar hjálparsamtaka á Íslandi er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og fólk á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Æ fleira fólk af erlendum uppruna hefur ekki aðrar bjargir en að framfleyta sér og sínum með fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Þar kemur einnig fram að ellilífeyrisþegnar og láglaunafólk leiti einnig til hjálparsamtaka en þó í minna mæli. Þó hefði komið fram í samtölum að fátækt væri sýnileg og áþreifanleg staðreynd sem færi vaxandi.

Í skýrslunni segir að almennt þurfi að útvíkka og bæta þau úrræði sem nýtast fátæku fólki, einkum með sérstökum úrræðum á tímum heimsfaraldursins. Þar segir einnig að endurmeta þurfi og útfæra úrræði fyrir fólk sem bíður örorkumats og styðja betur við fólk af erlendum uppruna. Loks var bent á mikilvægi þess að bjóða upp á varanleg úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda, á borð við geðröskun og fíkniefnavanda.

Höfundar skýrslunnar eru þær: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir

 

Á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni alþjóðasamfélagsins til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Unnið er að þeim markmiðum meðal annars með fjárframlögum til tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, með sérstakri áherslu á samvinnu við fátæk og óstöðug ríki og að bæta stöðu þeirra sem búa við lökust lífskjör. Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru Malaví og Úganda og njóta þau mests stuðnings frá Íslandi auk Mósambík, Palestínu og Afganistan, sem einnig fá umtalsverðan íslenskan stuðning í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Í öllum þeim ríkjum beinist þungi stuðningsins frá Íslandi að þeim hópum sem búa við sárafátækt og kerfisbundinn ójöfnuð, einkum í dreifbýli.

 

Hætta á mikilli fjölgun fátækra 2020-2021

Milljónir manna í heiminum búa við sárustu fátækt. Árið 2018 þurftu 8% jarðarbúa að gera sér að góðu að lifa á andvirði 1.90 Bandaríkjadals á dag. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd. Sameinuðu þjóðirnar telja að líta bera á fátækt sem marghliða vanda. Félagslegu réttlæti verði ekki fullnægt án þess að ráðast gegn umhverfislegu óréttlæti svo sem loftslagsbreytingar.

Fólk sem býr við fátækt upplifir margs konar innbyrðis tengdan skort sem hindrar það í því að njóta réttinda sinna og festir það í fátækragildrunni. Nefna má skort á næringarríkri fæðu, takmarkaðan aðgang að heilsugæslu, hættulegar vinnuaðstæður, ójafnan aðgang að réttarkerfi, póiltískt valdaleysi og menntunarskort.

 

Covid-19  þrýstir fólki niður í örbirgð

COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér stórfellt manntjón um allan heim. Hann hefur haft í för með sér fordæmislausa áskorun á lýðheilsu, fæðukerfi og atvinnulíf. Efnahagslegur og félagslegur skaði er óheyrilegur: tugir milljona eiga á hættu að verða örbirgð að bráð. Talið er að flokkur fátækra í heiminum muni gildna um 115 milljónir á þessu ári. Þetta er fyrsta fjölgun fátækra í áratugi. Einnig er búist við að fjöldi vannærðra aukist en nú er talið að 690 milljónir líði hungur. Sú tala gæti hækkað um 132 milljónir fyrir í byrjun ár 2021.

António Guterres Oddviti Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á þörfina á öflugum aðgerðum til að berjast gegn fátækt á þessum tímum. Faraldurinn krefst öflugra sameiginlegra aðgerða og aðal framkvæmdastjórinn hvetur ríkisstjórnir heims til að hraða efnahagslegri umbreytingu með fjárfestingum í sjálfbærri endurreisn.

„Ríki þurfa á nýrri kynslóð áætlana um félagslega vernd, sem nær til fólks í óformlega hagkerfinu. Eina örugga leið okkar út  úr faraldrinum er að taka höndum saman um sameiginlegan málstað,“ segir aðalframkvæmastjórinn.

Engin fátækt

1.1       Eigi síðar en árið 2030 hafi sárri fátækt verið útrýmt alls staðar. Miðað verði við að enginn hafi minna á milli handanna en sem nemur 1,25 bandaríkjadölum á dag til að framfleyta sér.

1.2       Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.

1.3       Innleidd verði viðeigandi félagsleg kerfi í hverju landi öllum til handa, þ.m.t. lágmarksframfærsluviðmið, sem styðji frá og með árinu 2030 allverulega við fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu.

1.4       Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir, karlar sem konur, og þá einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og hafi sama aðgengi að grunnþjónustu, eignarhaldi á og yfirráðum yfir landi og öðrum eignum, erfðum, náttúruauðlindum, viðeigandi tækninýjungum og fjármálaþjónustu, þ.m.t. fjármögnun smærri fjárfestinga.

1.5       Eigi síðar en árið 2030 verði staða fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu styrkt með fyrirbyggjandi aðgerðum til að bregðast við alvarlegum atburðum af völdum loftslagsbreytinga, efnahagslegum eða félagslegum áföllum, umhverfisskaða eða hamförum.

1.A      Tryggð verði margvísleg úrræði fyrir þróunarlönd, einkum þau verst settu, þar á meðal með aukinni þróunarsamvinnu, til að þeim standi til boða fullnægjandi og áreiðanleg aðstoð og hrint verði í framkvæmd áætlunum sem miða að því að útrýma fátækt í allri sinni mynd.

1.B       Mótuð verði traust umgjörð um stefnumál, alþjóðleg, svæðisbundin og á landsvísu, sem byggist á þróunaráætlunum sem taka einkum mið af stöðu fátækra og kynjamismunun, í því skyni að tryggja að aukið fjármagn fari í aðgerðir sem miða að því að útrýma fátækt.

WFP hlaut friðarverðlaun Nóbels

Félag Sameinuðu þjóðanna óskar Matvælaáætun Sameinuðu þjóðanna (WFP) innilega til hamingju með friðarverðlaun Nóbles fyrir baráttu stofnunarinnar gegn hungri. WFP hefur um margra ára skeið barist fyrir friði á átakasvæðum með aðgerðum sem afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum.

Árlega veita íslensk stjórnvöld kjarnaframlög til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem eru ein stærstu mannúðarsamtök heims í baráttunni gegn hungri og bregðast jafnframt við neyðarköllum frá stofnunni. WFP starfar í 88 löndum og aðstoðar tæplega eitt hundrað milljónir manna á ári hverju sem búa við alvarlegt matvælaóöryggi og hungur. Framlag Íslands á þessu ári er 137 milljónir króna.

„Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur um langt skeið verið ein af áherslustofnunum Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð og friðarverðlaun Nóbels eru að mínum dómi mjög verðskulduð viðurkenning fyrir ómetanlegt starf á átakasvæðum sem stuðlar að friði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í formlegu heillaskeyti sem hann sendi WFP þann 9.okt sl.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft veruleg áhrif um heim allan og hefur víða borið á matvælaskorti. WFP hefur aldrei veitt jafn mörgum matvælaaðstoð en á þessu ári. Markmið WFP er að aðstoða 138 milljóna einstaklinga en nú þegar hafa 85 milljónir manna á þessu ári notið matvælaaðstoðar stofnunarinnar. David Beasly framkvæmdarstjóri WFP sagði á fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að án aukinna framlaga væri heimurinn á barmi hungursneyðar.

 

Fyrir áhugasama var Vera Knútsdóttir framkvæmdarstjóri Sameinuðu Þjóðanna í útvarpsviðtali hjá Morgunvaktini um WFP hlekkur: https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunvaktin/23614/7hhgcp

Við viljum einnig benda á https://sharethemeal.org/en/ þetta app gerir fólki kleift að gefa barni skólamáltíð

Heimildir:

12 staðreyndir um WFP: https://insight.wfp.org/12-things-you-didnt-know-about-the-world-food-programme-4f8ee1914334

Heimsmarkmið 2: Ekkert hungur, nánar um störf WFP í þágu sjálfbærrar þróunnar:  https://www.wfp.org/zero-hunger

 

 

 

Stöðuskýrsla verkefnastjórnar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur ritað skýrslu um stöðu Íslands gagnvart markmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi. Í skýrslunni eru kortlögð helstu verkefni, áætlanir og áskoranir stjórnvalda gagnvart tilteknum markmiðum en á grunni þeirrar vinnu leggur verkefnastjórnin jafnframt fram forgangsmarkmið sem munu vísa stjórnvöldum veginn við innleiðingu markmiðanna næstu árin. Skýrsluna ná nálgasta hérna og afmarkaðan lista yfir forgangsmarkmið ríkisstjórnarinnar má nálgast hér.

Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna starfar undir forystu forsætisráðuneytis en að henni koma öll ráðuneyti ríkisstjórnarinnar. Þá eiga í henni sæti Hagstofa Íslands og Samband Íslenskra stjórnvalda. Félag Sameinuðu þjóðanna ásamt ungmennráði Sameinuðu þjóðanna eiga áheyrnarfulltrúa í verkefnastjórninni. Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu, stýrir vinnu verkefnastjórnarinnar.

Opnuð hefur verið sérstök kynningarsíða fyrir Heimsmarkmiðin, www.heimsmarkmidin.is ásamt því að að stofnuð hefur verið síða á facebook í sama tilgangi.

Við hvetjum alla til að fylgjast með framgangi Heimsmarkmiðana hér á landi og taka þátt í að vinna að þeim og efla vitund almennings. Félag Sameinuðu þjóðanna er ávallt reiðubúið til að svara fyrirspurnum um Heimsmarkmiðin.

Betri heimur fyrir alla: viðburður á Lýsu 2018 um Heimsmarkmiðin og innleiðingu þeirra á Íslandi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun snúa að því að búa til betri heim fyrir alla. Allir þurfa að taka þátt og stjórnvöld og sveitarfélög skipta þar gríðarlega miklu máli. Ríkisstjórnin samþykkti nýverið þau undirmarkmið sem sett verða í forgang á Íslandi og gaf út stöðuskýrslu um stöðu Íslands gagnvart markmiðunum. Á málstofunni Betri heimur fyrir alla, sem haldin verður sem hluti af  Lýsu 2018, gefst tækifæri til þess að kynnast áætlunum ríkisstjórnarinnar við innleiðingu Heimsmarkmiðanna sem og hvernig markviss innleiðing þeirra á vettvangi ríkis og sveitarfélaga getur stuðlað að betri heilsu og vellíðan íbúa á öllum æviskeiðum.

Fanney Karlsdóttir, forsætisráðuneyti mun kynna áætlun ríkisstjórnarinnar, Áslaug Karen Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Heimsmarkmiðana kynnir verkefni og aðgerðir utanríkisráðuneytisins, Páll Magnússon mun kynna hugmyndir Kópavogs og Gígja Gunnarsdóttir hjá Embætti landlæknis mun fjalla um Heilsueflandi samfélag og tengingu nálgunarinnar við Heimsmarkmiðin.

Fundarstjóri verður Harpa Júlíusdóttir frá Félagi Sameinuðu þjóðanna.

Málstofan fer fram í Hömrum, Menningarhúsinu Hofi, laugardaginn 8.september 2018 frá kl: 15:00-16:15 (vekjum athygli á breyttum tíma, áður auglýst kl: 13:15). Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Við vonum að sem flestir hafi kynnt sér Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þekki til þeirra. Flestir ættu að hafa heyrt á þau minnst eftir að auglýsingaherferð stjórnarráðsins fór í loftið fyrir ekki svo löngu. Hægt er að lesa sér til um Heimsmarkmiðin 17 og undirmarkmið þeirra hér á síðunni okkar.

Það eru margir aðilar sem vinna að Heimsmarkmiðunum og við fáum gjarnan fyrirspurnir um táknin og hvort að við eigum þau til. Við höfum nýlega látið uppfæra táknin í samræmi við nýjar þýðingar og breytingar frá Sameinuðu þjóðunum og allir geta nálgast þau hér. Í möppunni er að finna táknin á íslensku í prent og vef upplausn, táknin á ensku og yfirlitsmynd á íslensku. Við hvetjum þá sem ætla að nota táknin á opinberum miðlum að kynna sér reglur Sameinuðu þjóðanna um notkun þeirra en leiðbeiningarnar má finna hér.

Við erum ávallt reiðubúin til þess að svara fyrirspurnum um Heimsmarkmiðin og bjóðum einnig uppá fræðslu um Heimsmarkmiðin fyrir alla aldurshópa. Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga á fræðslu um Heimsmarkmiðin.

HeimsmarkmiðinMenntun fyrir alla

Ef ekki verður gripið til stórtækra aðgerða mun hafið innihalda meira plast en fisk árið 2050

Nýlega hefur Brasilíska ríkisstjórnin útnefnt tvö ný vernduð hafsvæði í kringum landið. Um er að ræða mikilvægt framtak og jákvætt skref í baráttunni fyrir verndun hafsins og lífríkis þess. Frá þessu er sagt á vef Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna eða UN Environment Programme. Nýja löggjöfin mun auka hlutfall verndaðra hafsvæða í kringum Brasilíu úr 1,5% í 24,5% og er landið þannig komið með ákveðið forskot en samningur Sameinuðu þjóðanna varðandi lífræðilega fjölbreytni ráðleggur aðildarríkjum að vernda 10% prósent af þeim haf- og strandsvæðum sem þeim tilheyra fyrir árið 2020. Er vonað að þetta jákvæða fumkvæði ríkisstjórnar Brasilíu og forskot á önnur þjóðríki verði fordæmi og veiti þeim innblástur til að gera slíkt hið sama. Erik Solheim, framkvæmdastjóri stofnunarinnar og aðstoðar aðalritari Sameinuðu þjóðanna tilkynnti þetta á áttundu vatnsráðstefnunni en hún var haldin á Alheimsdegi vatnsins, þann 23. mars síðastliðinn í Brasilíuborg.

Þessum umræddu svæðum mun vera stjórnað af hvort tveggja ráðuneyti umhverfismála og ráðuneyti varnarmála þar í landi en það þykir nýstárleg leið til að verndunar svæða og eitthvað sem önnur þjóðríki gætu því einnig skoðað sem valkost. Sjóherinn hefur, að auki, spilað sögulegt hlutverk í verndun eyja á svæðinu og mun halda sinni viðveru.

Denise Hamú, fulltrúi stofnunarinnar í Brasilíu, sagði ennfremur „höfin veita okkur næringu, koma reglu á loftslagið og framleiða mest af því súrefni sem við öndum að okkur. Samt sem áður séu þau í síaukinni hættu. Það að vernda þessi svæði veiti ávinning af vistfræðilegum, félagslegum og efnahagslegum toga og er eitt það besta sem við getum gert til að viðhalds hafs“. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðana hefur gefið það út að ef við grípum ekki til aðgerða hið fyrsta verði í hafinu meira plast en fiskur árið 2050 með tilheyrandi afleiðingum fyrir hafið, lífverur þess sem og líf á jörðinni. Jafnvægi undir vatni er ekki síður mikilvægt en uppi á yfirborðinu. Ójafnvægið sem ríkir undir sjávarmáli kemur okkur þó oftast síður fyrir sjónir.

Kóralrif hafsins verða á hverju ári fyrir meiri áhrifum plastnotkunar mannfólksins en þó þau hylji einungis 0,1 prósent af flatarmáli sjávar eru þau heimkynni 25 prósent alls lífs í höfunum. Kóralrifin eru náttúrulegir varnarveggir gegn hækkun sjávarmáls og 275 milljónir manna reiða sig á þau til lífsviðurværis. Á síðustu 30 árum höfum við séð 50% kóralrifa jarðarinnar hverfa vegna hækkkunar hitastigs í sjónum, sem orsakast aðallega af athöfnum mannfóksins. Rannsóknir hafa sýnt fram á, í auknum mæli, að kóralrifjunum steðjar mikil hætta af plasti en átta milljón tonn af plasti enda á hverju ári í sjónum og plast hefur þann eiginleika að eyðast ekki sjálfkrafa.

Ruslið sem safnast fyrir í höfum jarðarinnar hefur áhrif á vistkerfi, kjörlendi og líffræðilega fjölbreytni sjávar og kemur í mismunandi stærðum og gerðum. Plast er með skæðari úrgangi sem skilar sér út í sjóinn, vegna magns og eiginleika plastsins sem gerir því kleift að safnast hratt upp. Áhrif þessa bitna helst á lífríki sjávar og jarðar, vistkerfum og lífvæni en einnig til að mynda á þeim atvinnugreinum sem stundaðar eru á, í og við sjóinn líkt og fiskveiðum, ferðaþjónustu og vöruflutningum sem oft eiga einnig þar sök að máli. Herferðinni #CleanSeas var ýtt úr vör að Umhverfisstofnuninni til að minnka mengun sjávar og hvetja þjóðríki, hópa fólks og einstaklinga til þess að grípa til aðgerða en í desember 2017 höfðu einungis 40 lönd gengið til liðs við herferðina.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ábyrg neyslaVerndun JarðarinnarLíf í vatni

Málþing á hamingjudeginum um Heimsmarkmiðin og Heilsueflandi samfélag

Eliza Reid

„Veittu því athygli sem er jákvætt” sagði Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í einlægu ávarpi á málþingi um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Heilsueflandi samfélagi þar sem hún deildi sinni sýn á hamingjunni.

Málþingið var haldið 20. mars sl. í tilefni alþjóðlega hamingjudagins og kynnti Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félag Sameinuðu þjóðanna, störf félagins en það leggur áherslu á margvísleg verkefni til aukinnar almannavitundar, fræðslu- og samfélagsumræðu um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.

„Ábyrgðin er ekki einungis á höndum stjórnvalda heldur berum við líka ábyrgð sem einstaklingar á Heimsmarkmiðunum og í dag eru þið að taka þetta skref í þágu Heimsmarkmiðanna” sagði Vera áður en hún taldi upp ýmis atriði sem ber að hafa í huga þegar kemur að sjálfbærni til að mynda að draga úr matarsóun, flokkun plasts, val á vistvænum ferðamáta, mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn og taka þannig þátt í stefnumótun samfélagins. „Ég trúi því að með því að uppfylla heimsmarkmiðin þá verða lífsgæði okkar allra mun betri en þau eru í dag, kjarni þeirra er nefnilega að búa til samfélag þar sem allir fá að njóta sín og nýta hæfileika sína, samfélag sem ber virðingu fyrir náttúrunni svo við fáum að njóta fegurðarinnar og þeirra afurða sem hún hefur að gefa. Ég tel að í raun eru Heimsmarkmiðin uppskriftin að hamingjunni” bætti Vera við.

Megin áhersla málþingins var hvernig ríkið og sveitarfélög geta unnið markvisst að Heimsmarkmiðunum en Ásta Bjarnadóttir, frá verkefnisstjórn Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin, kynnti vinnu stjórnvalda og hvernig þau tengja sína starfsemi við Heimsmarkmiðin. Helsta hlutverk verkefnastjórnarinnar er að greina, innleiða og kynna markmiðin. Þau hafa nú þegar tekið stöðu á öllum undirmarkmiðunum og mun stöðuskýrsla sem inniheldur niðurstöður þeirrar vinnu verða birt fljótlega ásamt tillögum að forgangsmarkmiðum. Stór hluti af vinnunni er alþjóðasamstarf en Ísland mun kynna sína vinnu að Heimsmarkmiðunum á næsta ári á árlegi ráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

„Alþjóðlegar stefnumótanir ásamt Heimsmarkmiðunum geta verið frábær, en þegar uppi er staðið skiptir það mestu máli hvað er að gerast í daglega lífi fólks“ sagði Dr. Kai Ruggeri, lektor við Columbia University Mailman School of Public Health og yfirmaður stefnumótandi rannsókna við University of Cambridge. Í rannsóknum sínum hefur hann fjallað um hversu mikilvæg vellíðan er í stefnumótun ásamt áhrifum markmiðasetningu á komandi áhrif og framfarir. Dr. Ruggeri hefur mikið skoðað hvaða mælikvarða er hægt að nota við mælingu á vellíðan einstaklinga. Áður fyrr var talið að verg þjóðarframleiðsla og vellíðan haldist í hendur en önnur var raunin. Hann lagði áherslu á að skoða hvað aukin vellíðan gefur okkur í stað þess að einblína einungis á hvaða þættir hafa áhrif á vellíðan. Líður okkur betur ef við stöndum okkur betur í vinnu eða námi eða gerir aukin vellíðan það að verkum að við stöndum okkur vel?

Embætti landlæknis ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Birgir Jakobsson, landlæknir, fjallaði um Heilsueflandi samfélag (HSAM) og lærdóm þess verkefnis sem landlæknir. Birgir vitnaði í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina þegar hann minnti á að heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku. Embætti landlæknis leggur ýmislegt til við vinnu Heilsueflandi samfélaga til dæmis ráðgjöf, stuðning, fræðslusefni ásamt því að standa fyrir vinnustofum og námskeiðum. Þá gefur embættið gefur út lýðheilsuvísi eftir heilbrigiðsumdæmum til þess að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu svæðis, finna styrkleika og veikleika hvers svæðis og skilja þannig betur þarfir íbúa. Birgir sagði mikilvægt að átta sig á að ávinningur Heilsueflandi samfélags væri bæði fyrir almenning og þá sem stýra sveitarfélögunum. Í dag er um 75% landsmanna hluti af HSAM og er hlutverk embættisins að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun HÍ, kynnti niðurstöður rannsókna Embættis landlæknis um hamingju og vellíðan í íslenskum sveitarfélögum. Dóra gerði grein fyrir því hvernig þau gátu greint niðurstöður á sveitarfélög og munu heilsueflandi sveitarfélög geta fengið upplýsingar m.a. um stöðu hamingju og vellíðan í þeirra samfélagi á heilsueflandi.is. Þegar skoðuð voru tengsl milli hamingju unglinga og hagvaxtar kom í ljós að þegar hagvöxtur minnkaði þá fór hamingja unglinga upp. Þetta munstur má finna á öllum Norðurlöndum nema í Finnlandi en ekki er einfalt svar við þeim niðurstöðum. Þá leiddu niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að tekjur skýra minna en 1% af hamingju íslendinga.

„Þetta er lykilatriði, við verðum að hætta að horfa á geðheilsu sem heilbrigðisvandamál og horfa í stað þess á þetta sem samfélagsáskorun” sagði Dr. Fredrik Lindencrona sem kemur frá Sambandi sænskra sveitarfélaga þar sem hann er yfirmaður stefnumótandi umbóta og alþjóðlegs samstarfs í geðheilbrigðismálum. Dr. Fredrik greindi frá leiðum sem sænsk sveitarfélög hafa farið til þess að ná Heimsmarkmiði 3.4 og lagði áherslu á samvinnu allra, frá stjórnendum til stjórnmálamanna. „Auðvelt er að sjá hver kostnaðurinn er en erfiðara er að sjá hverjar tekjurnar verða“ sagði Dr. Fredrik og lýsti því hvernig Svíar hafa búið til kerfi til að meta fjárfestingar í félagslegum þáttum eins og geðheilsu.

Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið til að taka þátt með Embætti Landlækni í Heilsueflandi samfélagi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði frá þeim fjölmörgu verkefnum sem borgin hefur hrint í framkvæmt og eru til að mynda allir leik- og grunnskólar í Reykjavík hluti af Heilsueflandi samfélagi. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig lagt áherslu á Heilsueflinu eldri borgara með því að bjóða eldri borgurum frítt í sund, aðgengi að hreyfingu og 17 félagsheimilum. Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttadeildar hjá Akureyrarbæ, lýsti því vel hvernig Akureyrarbær mátaði Heimsmarkmiðin við það sem hefur verið gert, er verið að gera og það sem þau vilja gera. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kynnti fyrir hönd stýrihóps Hafnafjarðar þau 3 Heimsmarkmið sem bærinn vinnur að. Hún tók þó fram að þetta sé langhlaup, en ekki spretthlaup því góðir hlutir gerast hægt.

Björg Magnúsdóttir stýrir umræðum í lok málþings

Í lok málþingsins stýrði Björg Magnúsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, pallborðsumræðum þar sem ræðumenn málþingsins sátu í pallborði. Ýmist var rætt um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag og voru allir panelgestir sammála um að ekki sé hægt að einblína á eitt Heimsmarkmið fremur en annað þar sem mikilvægt er að líta á þau sem eina heild. Þá sköpuðust einlægar umræður á meðal panelgesta þar sem þau deildu hvað þau gera sem einstaklingar til þess að vera hamingjusöm.

Fundarstjóri var Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu hér.

Umhverfisráðstefna: Viðhorf almennings. Heimsmarkmið sem leiðarljós í loftlagsaðgerðum og verndun jarðar

Í janúar var haldin fyrsta ráðstefna sinnar tegundar á Íslandi; umhverfisráðstefna Gallup sem fyrirtækið hélt ásamt fjölda samstarfsaðila. Til hennar var blásið með það fyrir stafni að kynna niðurstöður nýrrar könnunar Gallup á viðhorfi landsmanna til umhverfis- og loftlagsmála. Vilji var fyrir því að ráðast í framkvæmd könnunarinnar þar sem vaxandi samfélagsleg umræða varðandi umhverfismál gaf til kynna að áhugi almennings hefði færst í aukana en yfir það vantaði þó tölulegar upplýsingar. Úr niðurstöðunum má ýmislegt lesa og draga fram en meðal annars mældust töluvert fleiri áhugasamir um málaflokkinn árið 2017 en árið 2000. 60% svarenda sögðust hafa áhyggjur af stöðu mála og einungis 6% sögðust ekki gera neitt til að sporna við áhrifum á umhverfið. Íslensk stjórnvöld hlutu fremur slæma einkunn eða 2.9 af 6 mögulegum varðandi viðleitni þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meirihluta aðspurðra þótti enn of lítið aðhafst.

Íslenska ríkið hefur bundið sig ákveðnum skilmálum er kemur að umhverfismálum og því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Parísarsáttmálinn svokallaði er ein þessara skuldbindinga. Árið 2015 var haldin loftlagsráðstefnan COP21 (Conference of the Parties, nr. 21) í París þar sem fulltrúar þeirra ríkja sem skrifað höfðu undir rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change -UNFCCC) samkomulagið komu saman og komist var að því samkomulagi sem varð Parísarsáttmálinn þann 12. desember 2015 en hann tók gildi 4. nóvember 2016. Ísland var eitt þessara þjóðríkja og samþykkti Alþingi fullgildingu sáttmálans þann 19. desember 2016. Sáttmálinn samanstendur af metnaðarfullum markmiðum sem beinast að sameiginlegri vinnu að því að halda hitastigi jarðar niðri og takmarka útblástur skaðlegra lofttegunda. Hvert ríki sem fullgilt hefur sáttmálann þarf síðan að setja sér eigin markmið varðandi það hvernig það ætli að vinna að þessu sameiginlega verkefni, mæla eigin útblástur og framtakssemi og gefa út skýrslu þess efnis.

Sama ár og loftslagsráðstefnan var haldin í París voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samþykkt. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og tóku gildi 1. janúar 2016. Markmiðunum er ætlað að ýta undir og stuðla að hnattrænni sjálfbærri þróun og á þeim að vera náð fyrir lok árs 2030. Þeim er ekki aðeins beint að stjórnvöldum heldur getur almenningur, fyrirtæki, félagasamtök og aðrir aðilar tekið þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun. Sex þessara markmiða snúa beint að umhverfismálum og önnur óbeint. Þessi markmið eru númer 7, Sjálfbær orka, 11, Sjálfbærar borgir og samfélög, 12, Ábyrg neysla, 13, Verndun jarðarinnar, 14, Líf í vatni og númer 15, Líf á landi.

Hvert og eitt þessa markmiða hefur síðan undirmarkmið sem ætlað er að auðvelda vinnuna að aðalmarkmiðinu og gera hana markvissari. Sumum undirmarkmiðunum er ætlað að ná fyrir aðalmarkið árið 2030 líkt og undirmarkmið 15.2 sem kveður á um að fyrir árið 2020 eigi að hafa tekist að „efla sjálfbæra stjórnun í öllum gerðum skóga, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurræktun skóga“. Verandi vel stætt aðildaríki að Sameinuðu þjóðunum og undirritunaraðili að öllum helstu samningum og bókunum hefur Ísland skuldbindið sig að standa við þær kröfur og væntingar sem settar eru fram í heimsmarkmiðunum. Þar á meðal er krafan um að betur stæð ríki heims taki frumkvæði og veiti aðstoð þeim ríkjum sem verr eru stödd.

Frá því að Parísarsáttmálinn varð fullgildur á Íslandi og heimsmarkmiðin voru tekin í notkun hefur losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum ekki minnkað heldur reiknar Umhverfisstofnun þvert á móti með því að orðið hafi aukning samkvæmt óstaðfestum tölum fyrir 2016 og 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið og almenn mengun sem kemur frá landinu hefur ekki einungis áhrif á náttúruna, líf á jörðu og í sjó við landið heldur veldur hún hnattrænum umhverfisáhrifum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lítur á loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamálið en hún samanstendur einna helst af svifryksmengun. Svifryk hefur slæm áhrif á heilsu fólks og telur stofnunin mengunina valda allt að sjö milljónum dauðsfalla á ári.

Meirihluti þátttakenda í viðhorfskönnun Gallup var þó bjartsýnn varðandi framtíðina en það þarf sérstaklega að spýta í lófana í ríkis- og fyrirtækjarekstri. Var aðspurður almenningur á því máli að fyrst ætti að greiða leiðina fyrir fyrirtækin og síðan heimilin í landinu. Hægt er að ganga að heimsmarkmiðunum sem tilbúnum leiðarvísi til að vinna eftir svo hægt sé að ná hvort tveggja heimsmarkmiðunum sem og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og breyta í átt til betri jarðar fyrir alla að búa. Vonast er til þess að viðhorfskönnunin verði framkvæmd árlega en þegar var til samanburðar norsk Gallup könnun og voru íslensku niðurstöðurnar á svipuðum nótum og þær norsku.

Samantekt á niðurstöðum könnunarinnar sem birtar voru á ráðstefnunni má nálgast í heild sinni hér:
https://www.gallup.is/wp-content/uploads/2018/01/Umhverfisk%C3%B6nnunGallup.pdf

Hér eru hagnýtar upplýsingar um UNFCCC á ensku:
http://bigpicture.unfccc.int/#content-the-paris-agreemen

Hér eru upplýsingar um Parísarsáttmálann á ensku:
http://unfccc.int/paris_agreement/items/9485.php

Hér eru heimsmarkmiðin 17 útlistuð ásamt undirmarkmiðunum á íslensku:
https://un.is/heimsmarkmidin

Hér er linkur á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:
http://www.who.int/en/

Hér má finna frétt frá Rúv um loftmengun:
http://www.ruv.is/frett/telur-loftmengun-bana-7-milljonum-a-ari