Öryggisráðið

Öryggisráðið ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis. Völd sem ráðið hefur, þ.á m. til að grípa til hernaðaraðgerða, eru skilgreind í sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa með aðild sinni samþykkt að vera bundin af ákvörðunum öryggisráðsins og hrinda þeim í framkvæmd.

Hlutverk öryggisráðsins samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna eru eftirfarandi:

  • að viðhalda alþjóðafriði og -öryggi í samræmi við grundvallarreglur og markmið Sameinuðu þjóðanna,
  • að gera tillögur um fyrirkomulag vopnamála,
  • að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af árás og gera tillögur um viðbrögð,
  • að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en stríðsátökum til að koma í veg fyrir eða stöðva árás,
  • að grípa til stríðsaðgerða gegn árásaraðila.

Fimm ríki hafa fast sæti í ráðinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Allsherjarþingið kýs hina fulltrúana tíu til tveggja ára í senn. Öryggisráðið má kalla saman hvenær sem er.

Auk aðalframkvæmdastjórans getur hvaða land sem er, hvort sem það er aðili að Sameinuðu þjóðunum eða ekki, vísað til öryggisráðsins deilumáli eða málum sem teljast ógnun við heimsfriðinn.

Aðildarríki skiptast á um að skipa forsæti ráðsins einn mánuð í senn og annar háttur er hafður á atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu en í allsherjarþinginu. Ályktanir þarfnast stuðnings níu fulltrúa í öryggisráðinu en auk þess hafa ríkin fimm, sem fast sæti eiga í ráðinu, neitunarvald.