Öryggisráð SÞ (UN Security Council)

Öryggisráð SÞ ber höfuðábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis. Sá áhrifamáttur og valdatæki sem öryggisráð SÞ hefur, þar á meðal til að grípa til hernaðaraðgerða, eru skilgreind í stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða (). Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa með aðild sinni samþykkt að vera bundin af ákvörðunum öryggisráðs SÞ og vera reiðubúin að hrinda þeim í framkvæmd.

Hér situr fundur í öryggisráð SÞ og fjallar um málefni hins stríðshrjáða lands Íraks.

Hlutverk öryggisráðs SÞ eru eftirfarandi:

 • að viðhalda heimsfriði og alþjóðaöryggi í samræmi við grundvallarreglur, markmið og stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða,
 • að gera tillögur um fyrirkomulag hernaðarmála og vopnabirgða,
 • að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af hernaðarárás og gera tillögur um möguleg viðbrögð,
 • að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en beinum hernaði til að koma í veg fyrir eða stöðva stríð og átök,
 • að grípa til hernaðaraðgerða gegn árásaraðila.

Fimm ríki hafa fast sæti í öryggisráði SÞ og hafa þar neitunarvald: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Allsherjarþing SÞ kýs í ráðið til viðbótar tíu aðildarríki til setu til tveggja ára í senn. Í núverandi öryggisráði SÞ hafa auk fyrrnefndra fastafulltrúa eftirtalin ríki setu í ráðinu og atkvæðisrétt þar: Eistland, Indland, Írland, Kenýa, Mexíkó, Níger, Noregur, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar, Túnisía og Víetnam. 

Auk aðalframkvæmdastjóra SÞ getur hvaða ríki og land sem er, hvort sem það er aðili að Sameinuðu þjóðunum eða ekki, vísað til öryggisráðs SÞ deilumáli eða málum sem teljast ógnun við heimsfriðinn.

Núverandi aðalframkvæmdastjóri SÞ António Guterres ávarpar fund í öryggisráði SÞ um friðarumleitanir víðs vegar um heim og þar sem vopnuð átök geisa.

Þau ríki sem eiga setu í öryggisráði SÞ skiptast á um að skipa forsæti ráðsins í einn mánuð í senn. Annar háttur er hafður á atkvæðagreiðslu í ráðinu en í allsherjarþingi SÞ. Ályktanir í ráðinu þurfa stuðning að minnsta kosti níu fulltrúa í ráðinu með þeim fyrirvara að neitunarvaldi sé ekki beitt. Fimm fastaríki að ráðinu geta beitt neitunarvaldi eins og áður greinir frá.

Öryggisráð SÞ leikur lykilhlutverk í því að viðhalda alþjóðlegum friði og öryggi. Samkvæmt sáttmála eru öll aðildarríkin skuldbundin til að fara eftir ákvörðunum öryggisráðs SÞ. Ráðið hefur forgöngu um að ákvarða um hættu á vopnuðum átökum eða ógn af stríði. Það hvetur deiluaðila til að komast að niðurstöðu með friðsamlegum hætti og mælir með aðferðum til að draga úr vopnaskaki eða kemur á sáttum með því að stilla til friðar. Í sumum tilvikum getur ráðið beitt þvingunum eða heimilað beitingu vopna til að viðhalda eða koma á frið og öryggi.  

Malala Yousafzai er á skjá að ávarpa einhverju sinni fund í öryggisráðme SÞ vegna málefna Afganistans. Malala er handhafi friðarverðlauna Nóbels.

Hlutverk Öryggisráðs SÞ er í sem stystu máli að varðveita frið og öryggi og getur það komið saman að eigin frumkvæði. Fulltrúi hvers ríkis sem setu á í ráðinu verður að hafa fasta viðveru í aðalstöðvum í New York. Það er gert beinlínis í því skyni að ráðið geti komið saman fyrirvaralaust og þegar tilefni þykir vera til þess.

Í samræmi við stofnsáttmála Hinna sameinuðu þjóða hefur öryggisráð SÞ fjórþætt hlutverk:

 • að viðhalda alþjóðlegum frið og öryggi;
 • að þróa vinsamleg samskipti á milli ríkja;
 • að vinna sameiginlega að því að að leysa alþjóðlegar deilur og að treysta í sessi mannréttindi;
 • og að vera hreyfiafl fyrir meiri samhljómi á milli þjóða.

Í starfi sínu við að varðveita frið og öryggi velur öryggisráð SÞ meðulega að leggja til friðsamlega lausn deilumála. Eftir að slík áskorun er lögð fyrir bregst ráðið við á eftirfarandi hátt:

 • setur fram leiðbeiningar um samkomulag á milli deiluaðila;
 • tekur sér á herðar að rannsaka og miðla málum, eftir því sem tilefni gefst til;
 • gerir út sendinefnd;
 • skipar sérlega sendierindreka; eða
 • fer fram á það við aðalframkvæmdastjóra SÞ að hann (eða hún?) beiti sér fyrir því að koma á friðsamlegri lausn deilumála. 
Ellen Johnson Sirleaf fyrrverandi forseti Líberíu ávarpar fund í öryggisráðme SÞ vegna friðarumleitana víðs vegar um heim.

Þegar deilur leiða til vopnaðra átaka er það fyrst og fremst hlutverk öryggisráðs SÞ að hindra frekari hernaðarátök svo fljótt sem auðið er. Í slíkum tilvikum getur ráðið gripið til eftirfarandi ráðstafana:

 • ályktað um vopnahlé sem getur hindrað stigmögnun stríðsátaka;
 • sent eftirlitsmenn eða friðargæsluliða til að aðstoða við að draga úr spennu, skilja að stríðandi fylkingar og koma á sáttum með því að stilla til friðar. Þær sættir deiluaðila í átökum koma svo til með að leggja grundvöll að friðsamlegri lausn deilumála. 

Þar fyrir utan getur öryggisráð SÞ beitt þvingunaraðgerðum sem meðal annars eru:

 • efnahagslegar refsiaðgerðir, vopnasölubann, fjársektir og hindranir og ferðabann;
 • slit á diplómatískum (formlegum) samskiptum; 
 • hafnbann;
 • eða jafnvel sameiginleg hernaðaríhlutun. 

Lykilatriði er að aðgerðir beinist að stríðsaðilum sem bera þá ábyrgð sem er fordæmd af alþjóðasamfélaginu. Um leið er í hvívetna dregið úr áhrifum aðgerða öryggisráðs SÞ á almenna borgara, samfélag og á efnahag.