Friður og réttlæti

Markmið 16 Friður og réttlæti Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum

16.1 Dregið verði alls staðar verulega úr öllum tegundum ofbeldis og tengdum dauðsföllum.

16.2 Upprætt verði misnotkun, misneyting, mansal og allar tegundir ofbeldis gegn börnum og pyntingar á þeim.

16.3 Réttarríkið verði eflt á landsbundnum og alþjóðlegum vettvangi og jafn aðgangur allra að réttarkerfinu tryggður.

16.4 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið verulega úr ólöglegu flæði fjármagns og vopna, efld endurheimt og skil á stolnum eigum og barátta gegn hvers kyns skipulagðri brotastarfsemi.

16.5 Dregið verði verulega úr spillingu og mútum í öllum myndum.

16.6 Þróaðar verði skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum stigum sem hafa gagnsæi að leiðarljósi.

16.7 Tryggð verði ákvarðanataka á öllum stigum þar sem brugðist er við aðstæðum, er víðtæk, byggist á þátttöku og er lýsandi.

16.8 Víkkuð verði út og efld þátttaka þróunarlanda í stofnunum sem eru ábyrgar fyrir stjórnun á heimsvísu.

16.9 Öllum verði útveguð lögleg skilríki, þ.m.t. fæðingarvottorð, eigi síðar en árið 2030.

16.10 Tryggður verði aðgangur að upplýsingum og vernd grundvallarréttinda í samræmi við landslöggjöf og alþjóðasamninga.

16.a Viðeigandi landsbundnar stofnanir verði styrktar, s.s. á grundvelli alþjóðlegrar samvinnu, með því að efla getu á öllum stigum, einkum í þróunarlöndunum, til að koma í veg fyrir ofbeldi og berjast gegn hryðjuverkum og brotastarfsemi.

16.b Lög og stefnumál á sviði sjálfbærrar þróunar, án mismununar, verði efld og þeim framfylgt.